Kári – Huginn 2-5 (2-2)Káramenn áttu fínan fyrri hálfleik gegn toppliði Hugins og strax á 2 mínútu skoraði nýr leikmaður Kára Felix Hjálmarsson mark eftir mikið klafs í teig Hugins. Huginn skoraði svo álíka mark hinum meginn skömmu síðar. Huginn komst svo yfir 1-2 um miðjann leikinn með frábærri aukaspyrnu frá Marko Nikolic 10 metrum fyrir utan teig. Káramenn jöfnuðu svo leikinn á 43 mínútu þegar Kristinn Aron Hjartarson skoraði gott mark með skalla. Staðan í hálfleik sanngjörn 2-2 í jöfnum leik.Í seinni hálfleik kom svo munurinn á liðunum í ljós, en Huginsmenn tóku þá öll völd á vellinum og stjórnuðu seinni hálfleiknum á meðan Káramenn sem virtust þungir eftir allt leikjaálagið lágu til baka og gekk lítið að sækja. Huginn komst fljótlega yfir í seinni hálfleik með lúmsku skoti frá Rúnari Frey Þórhallssyni utan úr teig í nær hornið. Þeir bættu svo í um miðjan seinni hálfleikinn þegar þeir fengu ódýra aukaspyrnu úti á hægri kanti, en aukaspyrnann endaði á kollinum á Rúnari Frey Þórhallssyni sem stýrði honum laglega í markið.Huginn gerði svo endanlega út um leikinn skömmu fyrir leikslok þegar Káramenn brutu klaufalega af sér inn í teignum og réttilega dæmd vítaspyrna. Friðjón Gunnlaugsson skoraði úr spyrnunni af miklu öryggi efst upp í hægra markhornið.Niðurstaðan því sanngjarn 2-5 sigur Hugins sem hefur unnið síðustu 10 leiki sína í deildinni og trónir á toppnum með 30 stig, 3 stigum meira en nágrannarnir í Fjarðabyggð. Káramenn sitja sem fastast í 8 sæti með 9 stig eða 3 stigum meira en botnlið Magna og Grundarfjarðar.