ÍA spilaði sinn síðasta leik í Lengjubikarnum þegar þær mættu firnasterku liði Grindavíkur, sem skartaði sex útlendingum í byrjunarliðinu. Með sigri áttu stelpurnar möguleika á að vinna B riðilinn í Lengjubikarnum svo að nokkru var að keppa.
Fyrri hálfleikur var ágætlega spilaður af hálfu ÍA en Grindavík var sterkari aðilinn framan af án þess þó að nýta þau færi sem sköpuðust. Stelpurnar áttu nokkrar fínar sóknir en þær voru ekki vel upplagðar upp við markið frekar en heimamenn svo staðan var markalaus í hálfleik.
Í seinni hálfleik fór að koma í ljós styrkleikar Grindavíkurliðsins og þær skoruðu tvö góð mörk auk þess að skapa sér nokkur önnur ágæt færi. ÍA átti margar fínar sóknir í hálfleiknum og úr einni slíkri skoraði Aníta Sól Ágústsdóttir á lokamínútu leiksins. Ekki náðist að jafna metin og Grindavík vann því 2-1.
Stelpurnar stóðu sig frekar vel í dag og taka mikinn lærdóm úr leiknum. ÍA endaði í þriðja sæti í Lengjubikarnum og framundan er fyrsti leikur í 1. deild kvenna þann 12. maí gegn Tindastól.