Saga ÍA

ÍA 60 ára söguágrip

 

1946 – 1956

 

Íþróttabandalag Akraness var stofnað 3. febrúar árið 1946 af knattspyrnufélögunum KA og Kára og var fyrsti formaður þess Þorgeir Ibsen. Það tók við af Íþróttaráði Akraness sem var stofnað af sömu félögum árið 1934 og var fyrst formaður þess Axel Andrésson knattspyrnuþjálfari. Það sama ár var byrjað að vinna í sjálfboðavinnu byggingu nýs knattspyrnuvallar á Jaðarsbökkum, á sama stað og núverandi keppnisvöllur er, en gerð hans lauk árið 1935.

Árið 1946 er ár mikilla framfara í íþróttastarfsemi á Akranesi. Í lok þess árs var íþróttahúsið við Laugarbraut tekið í notkun. Það breytti allri aðstöðu við iðkun íþrótta. Þá er ákveðið að taka þátt í Íslandsmóti meistaraflokks í knattspyrnu. Fyrst í stað var nafn íþróttabandalagsins skammstafað ÍBA, en var breytt skömmu síðar í ÍA, þar sem Íþróttabandalag Akureyrar var með sömu skammstöfun.

Þá gerðist það árið 1946, að Akurnesingar hlutu sinn fyrsta Íslandsmeistaratitil, er 2. flokkur vann frækinn sigur í mótinu. Árið 1947 er KSÍ stofnað og var Guðmundur Sveinbjörnsson formaður ÍA kosinn í stjórnina og sat hann þar í ein 20ár. Skagamenn leika sinn fyrsta leik á heimabelli 1950 gegn erlendu liði er KFUM Boldklubb frá Kaupmannahöfn kom í heimsókn.

Tímamót urðu í Íslenskri knattspyrnusögu árið 1951 er Skagamenn urðu Íslandsmeistarar í meistaraflokki, fyrstir liða utan Reykjavíkur. Á þessu árabili var það aðallega knattspyrna sem iðkuð var á vegum KA og Kára, en auk þess voru æfðir fimleikar undir stjórn Stefáns Bjarnasonar, einnig handknattleikur, glíma, badminton, frjálsar íþróttir, sund, skíði og fyrsta Íslandsmótið í hjólreiðum sem haldið var á Akranesi.