Kæru félagar
Nú berast fregnir af því að við séum um það bil hálfnuð með samkomubannið en á þeim tíma höfum við orðið vitni að ótrúlegri samvinnu, elju og hugmyndaauðgi þjálfara, iðkenda og stjórnenda hjá ÍA. Framundan eru hins vegar vikur sem gætu reynst erfiðar ef spár um hámark sjúkdómsins rætast. Í seinni hálfleik er mikilvægt að við höldum áfram þessari miklu vinnusemi og klárum verkefnið með sóma en til að tryggja það er nauðsynlegt að félög, þjálfarar og iðkendur séu tilbúin með plan B, ef svo fer að lykilfólk lendi í sóttkví eða veikist.
Íþróttahreyfingin á mikið undir velvilja einstaklinga, fyrirtækja og samfélagsins sem við búum í. Oft þurfum við að leita til þessa hóps eftir stuðning, inni á vellinum, við uppbyggingu aðstöðu eða fjáraflanir. Um þessar mundir hvílir þó meira á samfélaginu og því er núna rétti tíminn fyrir íþróttahreyfinguna að gefa til baka til samfélagsins og styðja við það á erfiðum tímum. Akraneskaupstaður hefur óskað eftir fólki í bakvarðasveit og hvetur framkvæmdastjórn ÍA aðstandendur aðildafélaganna að skrá sig í bakvarðasveit velferðarþjónustu https://www.akranes.is/is/vidbrogd-vegna-covid19/upplysingar-information-informacja eða bjóða aðstoð þar sem hennar er þörf.
Við búum yfir öflugri liðsheild og sameiningarkrafti innan þeirra 19 aðildafélaga sem saman mynda ÍA. Tökum höndum saman og hjálpumst að, við erum öll í sama liði. Eins og gildi ÍA segja:
Að koma saman er byrjun
Að vera saman eru framfarir
Að vinna saman er árangur
Marella Steinsdóttir
Formaður ÍA