Fimmtudaginn 12. apríl var 74. ársþing ÍA haldið í hátíðarsal á Jaðarsbökkum. Góð mæting var á ársþingið og sköpuðust góðar umræður um stöðu íþrótta á Akranesi og framtíðarsýn.
Sigurður Elvar Þórólfsson var kjörinn þingforseti og stýrði hann ársþinginu af myndarbrag. Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, formaður ÍA fór yfir það helsta í starfsemi Íþróttabandalagsins á árinu 2017 og Svava Huld Þórðardóttir fór yfir ársreikninga félagsins. Ársskýrslu ÍA og aðildarfélaga auk ársreikninga má finna á heimasíðu ÍA. Fram kom m.a. að fjárhagsstaða ÍA er traust og rekstur aðildarfélaga almennt góður og fjárhagur flestra þeirra traustur þrátt fyrir að alltaf vanti fé til að gera enn betur.
Ný stjórn ÍA var kjörin á ársþinginu. Formaður var kosinn Marella Steinsdóttir og Hörður Helgason var kjörinn varaformaður. Aðrir í framkvæmdastjórn ÍA eru: Svava Huld Þórðardóttir sem sat áður í stjórn og Tjörvi Guðjónsson og DýrfinnaTorfadóttir sem koma ný inn í stjórn.
Varamenn í stjórn eru eins og á síðasta ári: Ragnhildur Inga Aðalsteinsdóttir og Pálmi Haraldsson. Úr stjórn gengu varaformaðurinn og fyrrum formaður Sigurður Arnar Sigurðsson og Helga Sjöfn Jóhannesdóttir, fráfarandi formaður. Einnig Þráinn Haraldsson meðstjórnandi. Voru þeim þökkuð góð og farsæl störf fyrir ÍA.
Ellefu aðilar voru sæmdir bandalagsmerki ÍA fyrir góð störf fyrir ÍA og aðildarfélög þess. Þessir aðilar eru: Berglind Þráinsdóttir, Brynja Kolbrún Pétursdóttir, Eydís Líndal Finnbogadóttir, Jón S Ólasson, Kári Haraldsson, Lárus Ársælsson, Margrét Ákadóttir, Sigríður Ragnarsdóttir, Sveinbjörn Hlöðversson, Trausti Gylfason og Þórður Sævarsson og eru ítrekaðar þakkir til þeirra fyrir vel unnin störf.
Hafsteinn Pálsson tók til máls og bar fyrir kveðju frá ÍSÍ og sæmdi um leið Jón Þór Þórðarson, núverandi formann Körfuknattleiksfélags ÍA og fyrrverandi íþróttafulltrúa ÍA til margra ára, silfurmerki Íþróttasambands Íslands.
Hildur Karen Aðalsteinsdóttir kynnti jafnréttisstefnu ÍA og stefnu Íþróttabandalags Akraness og aðildarfélaga þess gegn einelti, áreitni og ofbeldi og var hún samþykkt af þinginu. Stefnurnar er að finna á heimasíðu ÍA (set link inn seinna).
Helga Sjöfn og Marella afhjúpuðu málverk af Guðmundi Sveinbjörnssyni, fyrrverandi formanni ÍA og mikils velgjörðarmanns íþrótta á Akranesi. Bjarni Þór Bjarnason, listmálari málaði myndina. Bjarni Þór og Ásta Salbjörg gáfu ÍA myndina og eru þeim færðar bestu þakkir fyrir höfðingskapinn nú sem fyrr.
Marella Steinsóttir nýr formaður ÍA þakkaði fráfarandi stjórnarmönnum mikil og góð störf fyrir íþróttabandalagið og íþróttahreyfinguna á Akranesi og færði þeim blómvönd. Helga Sjöfn Jóhannesdóttir fráfarandi formaðursleit þinginu og lagði áherslu á að bjart væri framundan hjá ÍA og með samheldni og samvinnu væru félaginu allir vegir færir.