Sundfélag Akraness

Sundskólinn er hluti af starfsemi Sundfélags Akraness og hefur verið starfræktur frá árinu 1999.  Sundskólinn er fyrir börn frá aldrinum 3ja mánaða til 5 ára.  Hvert námskeið er 10 skipti og er hver tími 45 mínútur að lengd.
Helsta markmið sundskólans er að börnin upplifi vatnið sem jákvætt og skemmtilegt hreyfiumhverfi þar sem börn og foreldrar njóta þess að vera saman. Sundskólinn býður upp á metnaðarfullt starf og þar starfar menntaður íþrótta- og sundkennari.

Áherslur í sundinu

Við leggjum mikla áherslu á að börnin læri að umgangast vatnið af virðingu og öryggi, að þau efli sjálfstraust og hugrekki við sundiðkun. Unnið er með hreyfiþjálfun í vatni þar sem m.a. er farið í margskonar hreyfileiki og sungið. Þannig gefst ykkur tækifæri til að efla tilfinningatengslin við barnið ykkar. Barnið lærir einnig að treysta ykkur í vatninu og þið lærið ný handtök fyrir barnið við aðrar aðstæður en í daglega lífinu.

Barnið lærir m.a. að bera virðingu fyrir vatninu og hættir sér síður út í það nema einhver sem það treystir sé nálægur.

Aðal markmiðað hinsvegar er að öllum líði vel og þeir njóti þess að vera í lauginni.

 

 Sundbúnaður og upphaf tímans

Allir verða að vera í góðum sundfötum sem eru frekar þétt að lærum, æskilegt er að strákar séu ekki í sundstuttbuxum.

Ef þið eruð tilbúin áður en sundtíminn ykkar hefst (helst ekki meira en 4-5 mínútum fyrr) þá laumið þið ykkur ofaní laugina og látið lítið fyrir ykkur fara þar til tíminn ykkar hefst.

Þáttakendur í tímanum og áhorf á bakka

Með hverju barni mega vera tveir einstaklingar í lauginni og verður annar þeirra að vera fullorðin, séu þið með annan aðstoðarmann en foreldri þá mega þeir ekki vera yngri en 10 ára.

Ef ósynd börn eru með ykkur á bakka er mjög mikilvægt að þau séu í umsjón fullorðins aðila og hann sleppi ekki augunum af þeim því það hefur komið fyrir að þau hoppi í laugina án þess að nokkur taki eftir.

Skráning og nánari upplýsingar fást í tölvupósti ungbarnasund@sundfelag.com