Ýmislegt varðandi æfingar og keppni

 

Skotfimi með loftskammbyssu.

10 metra skotfimi með loftskammbyssu er alþjóðleg keppnisgrein.  Keppt er í greininni á ólympíuleikum, heimsmeistara- og heimsbikarmótum undir merkjum ISSF (alþjóðaskotsambandsins), Evrópumeistaramótum undir merkjum ESC (Evrópusambandsins) og norðurlandamótum unglinga undir merkjum NSR (norðurlandasambandsins).

Skotíþróttasamband Íslands, STÍ, er aðili að öllum framangreindum skotsamböndum og auk þess aðili að Íþrótta- og ólympíusambandi Íslands.

STÍ stendur fyrir mótaröð á ári hverju sem stendur saman af 5 landsmótum, bikarmeistaramóti og Íslandsmeistaramóti.  Auk þess eru haldin tvö opin mót á vegum skotfélags Reykjavíkur, eitt á vegum skotfélags Kópavogs og eitt á vegum skotfélags Akraness.

 

Skv. vopnalögum er 15 ára og eldri heimilt að stunda greinina á Íslandi en erlendis er þessi aldur víðast miklu lægri.  Eitt af því sem gerir greinina skemmtilega er að fólk getur auðveldlega stundað hana fram eftir öllum aldri og eru til dæmi um keppnismenn í fremstu röð sem komnir eru yfir sjötugt.

 

Keppni í loftskammbyssu.

 

 • Leyfðar eru allar skammbyssur 4.5mm ( cal 1.77 ) sem nota þrýstiloft eða kolsýru til að knýja skotið.  Þær þurfa raunar að uppfylla ákveðin skilyrði varðandi stærð, þyngd og gikkþyngd.

 

 • Færið er 10 metrar.

 

 • Fjöldi skota í keppni er 60 skot hjá körlum og 40 hjá konum.

 

 • Hæsta mögulega skor er 600 stig hjá körlum og 400 stig hjá konum en hvorugt hefur nokkurn tíma náðst.

 

 • Tíminn til að skjóta er 1 klst og 45 mín hjá körlum og 1 klst og 15 mín hjá konum.

 

 • Þegar keppni er hafin er heimilt að skjóta ótakmörkuðum fjölda upphitunarskota á sérstaklega merktar æfingaskífur.  Tíminn sem fer í æfingaskotin dregst frá keppnistímanum.

 

 • Eftir að keppandi skýtur fyrsta keppnisskoti má hann ekki skjóta æfingaskotum með þeirri undatekningu þó að heimilt er hvenær sem er að “ þurrskjóta “ þ.e. hleypa af byssunni óhlaðinni.

 

 • Byssur má einungis hlaða með einu skoti í einu og er einu skoti skotið á hverja skotskífu (Allar betri keppnisbyssur taka aðeins eitt skot).

 

 • Keppt er í flokkum kvenna, karla, drengja (15 – 20 ára) og stúlkna (15 – 20 ára).

 

 • Á Íslandsmóti er að auki keppt í styrkleikaflokkum og eru keppendur flokkaðir eftir besta árangri sem þeir hafa náð.

 

 • Flokkarnir eru hjá körlum:
  0. flokkur byrjenda
  3. flokkur 480+
  2. flokkur 525+
  1. flokkur 540+
  Meistaraflokkur 563+

563 er jafnframt ólympíulágmark

 

 • Hjá konum:
  0. flokkur byrjenda
  3. flokkur 310+
  2. flokkur 330+
  1. flokkur 348+
  Meistaraflokkur 365+

365 er jafnframt ólympíulágmark

 

 

 KEPPNI Í SKOTFIMI.  Nokkur góð ráð

Íslenskir skotíþróttamenn leggja margir alltof lítið upp úr því að vinna með hausinn á sér svo ekki sé minnst á skrokkinn.

Ef menn ná að tileinka sér það sem stendur hér eru þeir í góðum málum. Ég held að flestir keppnismenn kannist við það að slæmu skotin koma þegar eitthvað klikkar í hausnum – oftast einbeitingin.

 

 

 

 

Keppnin er sá staður sem þú prófar hver árangur af undanfarandi æfingum og vinnu er. Þar er staðurinn sem þú nærð settum markmiðum.

Þegar þú ferð til keppni, ferðu til að vinna en ekki til að reyna að vinna. Með þessu er ekki átt við að vinna aðra keppendur heldur vinna með því að ná þeim markmiðum sem þú hefur sett þér.

Það vill svo til að á sama tíma koma aðrir til að skjóta og ná þeim mörkum sem þeir hafa sett sér en þeir eru þér að öðru leiti óviðkomandi.

Það vill líka svo heppilega til að á staðnum er líka fólk sem losar þig við skotskífurnar sem þú ert búin/nn að nota og mælir fyrir þig árangurinn svo þú þarft ekkert að vera að hafa áhyggjur af því að telja eða spá í hvernig þér gengur.

Í þessari keppni eru engin önnur verðlaun aðeins fyrstu verðlaun og þeim ætlar þú að ná. Þessi fyrstu verðlaun hafa ekkert með það að gerahvort verðlaunapeningur verður hengdur um hálsinn á þér eða ekki. Þú ert þarna út frá eigin forsendum, með eigin markmið og í þinni einkakeppni sem kemur engum öðrum við. Þín keppni er það eina sem skiptir máli og allar vangaveltur um annað eru til þess eins fallnar að trufla þig og skemma einbeitingu.

Einbeitingin að því að ná fullkomnu skoti er það sem öllu máli skiptir og þú leyfir engu að skemma hana.

 

Nokkrir punktar sem vert er að hafa í huga.

 • Hitaðu upp og teygðu áður en keppni hefst. Upphitunin er öðru fremur fólgin í að þurrskjóta.
 • Mættu tímanlega og gefðu þér góðan tíma í undirbúning.
 • Að ná fullkomnu skoti er það eina sem skiptir máli.
 • Vertu búin/nn að setja þér raunhæft markmið.  Ekki geraráð fyrir því að þú náir endilega þínum best árangri og ekki geraráð fyrir að geta gert betur en á bestu æfingu.
 • Hugsaðu jákvætt. Hugsaðu um hvernig tilfinning það er þegar vel gengur.
 • Láttu ekkert trufla þig, ekki láta umhverfishljóð trufla þig, ekki skoða hvað aðrir eru að gera.  Mundu að truflun er þitt eigið hugarástand.
 • Í einn klukkutíma og 45 mínútur eða einn og 15 mínútur skiptir aðeins eitt máli. Þú ætlar að ná þínu besta skoti, einbeita þér að því og engu öðru.
 • Hvert skot er einstök keppni.  Skot sem er farið er þar með búið og truflar þig ekki meir hvort sem það var gott eða slæmt. Næsta skot – næsta keppni er hafin og krefst allrar þinnar einbeitingar.
 • Þegar þú miðar hugsar þú ekki um neitt annað en fullkomið skot.  Ef þér finnst að það sé að verða kominn of langur miðunartími þá leggurðu byssuna niður. Að finnast að tíminn sé orðinn of langur þýðir einfaldlega að einbeitingin er farin og þú ert farinn að hugsa um annað en fullkomið skot. Klár heimska að halda áfram. Byrja skotið upp á nýtt.
 • Áður en byssunni er lyft upp til að miða og skjóta skaltu fara yfir í huganum hvernig fullkomið skot er. Fyrir hvert einasta skot.
 • Ekki telja skotin.  Þegar skífurnar eru búnar eru skotin orðin nógu mörg.
 • Ekki leggja saman og ekki velta fyrir þér heildarskori. Það gerir ekkert annað en trufla einbeitingu og auk þess eru aðrir sem hafa þetta hlutverk.
 • Ekki miða hvíldir við að vera búin/nn að ljúka ákveðnum skotafjölda (enda telur þú ekki skotin).   Ef þér fer að ganga illa að fókusa á framsigtið, taktu hvíld.  Ef þú þreytist, taktu hvíld.
 • Þú hættir ekki fyrr en síðasta skotið er farið. Keppnin snýst ekki um að ljúka einhverju af.
 • Skot í final eru ekkert annað en 10 skot í viðbót við þau 40/60 sem búin eru. Þ.e. 10 fullkomin skot í viðbót. Þér kemur ekkert við hvað dómarinn er að kalla eða hversvegna verið er að klappa. 70 sekúndur eru meir en nógur tími fyrir hvert skot og láttu hvert skot verða besta skotið.
 • ÞÚ VEIST ÞÚ GETUR UNNIÐ OG TIL ÞESS KOMSTU.