Pistlar sem birst hafa í leikskránni í heimaleikjum í vetur.

21.10.11 ÍA – ÍG

ÁFRAM ÍA

Nú er lag. Skagamenn eru komnir í 1. deild íslensks körfubolta og þar munum við slá á létta strengi í vetur. Þetta verður engin flókin sinfónÍA en á eftir að hitta fólk í hjartastað og ekki ólíklegt að einhver eigi eftir að koma og segja „þú komst við hjartað í mér“.

Til að búa til tónlistarsmell er hægt að notast við hina ýmsu tóna, setja saman lag Í G, d, sjöund og svo framvegis. Þetta getur stundum orðið flókið og snúist í höndum á lagasmiðum.

Í íþróttum er þetta mjög svipað og því er oft best að notast við einfaldleikann. Byggja á því sem maður hefur og þekkir og leita langt yfir skammt.

Það er því með stolti sem við kynnum til leiks heimamenn í ÍA undir stjórn nýjasta heimamannsins, Terrence Watson, sem við bjóðum velkominn heim. Þessi Trausti Dagur, 21. október, er upphaf heimaleikja spennandi tímabils og vonum við að allir njóti þessa veturs með okkur.

Ykkar styrkur og stuðningur skiptir okkur miklu máli og trúum við að það verði Stuðmenn á pöllum Jaðarsbakkanna.

Ykkur að segja þá verður þetta lag eingöngu Í A, einföld sinfónÍA en virkar.

 

Fyrir hönd KFA
Hannibal Hauksson

 

18.11.11 ÍA – Hamar

 

Ágæta stuðningsfólk.

Sem gamall körfuboltaspriklari, að sjálfsögðu með litríka sögu á þeim vettvangi, þá er það heiður að leggja orð í belg í leikskrá Körfuboltafélags ÍA. Það er eins og með annað: Þótt körfuboltinn hafi vissulega verið óviðjafnanlegur í gamla daga þá eru leikmenn í dag einhvern veginn fljótari, hitnari, stærri og sterkari. Þeir eru sem sagt eldri kynslóðum betri. Þannig á það að vera og ánægjulegt að Skagamenn tefli nú fram efnilegu liði sem vonandi nær góðum árangri í 1. deildinni. Enginn vafi er að á Akranesi er jarðvegur fyrir gott körfuboltalið – karla og kvenna. Íþróttin býr að þeim ákjósanlega kosti að hana má iðka innandyra sem utan hvort heldur iðkandinn er einn eða með fleirum. Götubolti eða skipulagðar æfingar skila iðkandanum fram veginn og smám saman skapast sú hefð sem skilar afreksfólki í greininni og öflugum liðum. Grunnurinn að góðu körfuboltaliði á Skaganum er fyrir hendi og áhuginn á að standast samanburð við þá bestu er til staðar. Það er því ekkert annað en að grípa tækifærið og duga í þeirri baráttu sem framundan er.

Gangi ykkur vel Skagamenn og látið til ykkar taka í körfunni!!

Skagamaðurinn
Gísli Gíslason

11.12.11  ÍA – Fjölnir bikarleikur

Það gleður í manni boltahjartað að sjá að mínir menn eru farnir að láta til sín taka í körfunni á ný svo um munar. Sem stjórnarmaður og um tíma formaður Körfuknattleiksfélags Akraness var ég svo heppinn að fá að sitja í þeim tilfinningalega rússíbana sem fylgir stjórn og umsýslu lítils félags.Úrslitaleikur í bikarkeppinninni 1996 og dramatískar undanúrslitaviðureignir í Úrvalsdeildinni 1998 voru hápunktarnir áður en fjárhagslegir brestir gerðu vart við sig fyrir alvöru og leiddu á endanum til þess að rifa varð seglin svo um munaði.
Sjálfboðaliðastarf eins og fylgir því að að halda utan um hvers kyns félagsstarf er því miður á undanhaldi í tölvusamfélagi nútímans. Það því einkar gleðilegt að sjá að enn skuli finnast kraftmiklir einstaklingar til þess að leiða það góða starf sem unnið er innan vébanda Körfuknattleiksfélags Akraness. Á Akranesi eru allar forsendur fyrir því að halda úti kröftugu körfuboltastarfi. Því er mikilvægt að hlúa vel að grasrótinni samhliða því sem rækt er lögð við að efla meistaraflokk félagsins. Hann verður nefnilega alltaf sú endastöð sem yngri leikmenn stefna að til framtíðar.
Gangi ykkur allt í haginn – áfram Skagamenn!

Sigurður Sverrisson,
fyrrv. formaður KFA

 

16.12.11  ÍA – Ármann
Kæru stuðningsmenn,
Það eru að koma jól…

Körfuknattleiksfélag Akranes óskar ykkur gleðilegra jóla og farsæls komandi árs.

Þökkum ykkur góðan stuðning á árinu sem er að líðar… Sjáumst 2012.

Áfram ÍA

Körfuknattleiksfélag Akranes

 

07.01.12  ÍA – Höttur

 

Pistill væntanlegur

 

20.01.12  ÍA – KFÍ

Kæru stuðningsmenn,

Körfuknattleiksfélag Akraness (KFA) er eitt af fjölmörgum íþróttafélögum innan vébanda Íþróttabandalags Akraness, ÍA. Körfubolti hefur verið stundaður undir nafni KFA síðan árið 1986 og hefur félagið spilað í öllum deildum sem spilaðar eru undir stjórn KKÍ. Frægðarsól KFA stóð hæst á árunum 1993-2000 þegar liðið spilaði í úrvaldsdeild og árið 1996 í bikarúrslitaleik KKÍ.

Eftir magra tíð síðustu ár er markmið okkar að byggja upp öflugt félga til langs tíma.  Þá er best að huga vel að grunninun og KFA hefur áhuga á að fjölga flokkum fyrir yngri iðkendur körfuknattleiks á Akranesi. Hófst uppbygging á aðsókn yngri iðkenda í vor með körfuboltabúðum þar sem 3 fyrrum leikmenn KFA komu og leiðbeindu krökkunum. Voru þetta leikmenn úr Íslandsmeistaraliði KR þeir Pavel Ermolinskij og Jón Orri Kristjánsson auk Fannars Helgasonar fyrirliða Stjörnunnar sem spilaði á móti KR í úrslitum Íslandsmótsins nú í vor. Um 70 iðkendur á aldrinum 6-18 ára mættu og nutu leiðbeininga frá uppöldum Skagamönnum sem eru frábærar fyrirmyndir íslensks körfubolta í dag.

Yngriflokkastarf er mjög dýrmætt starf og snýst ekki einungis um að búa til afreksfólk í íþróttum heldur góða einstaklinga út í lífið.  Íþróttir eru forvörn.

Æfingatímar af http://ia.is/vefiradildarfelog/korfuknattleikur/vetrarstarfid/ :

KFA
ÍA – Körfuknattleiksfélag Akranes

03.02.12  ÍA – Skallagrímur

Ágætu stuðningsmenn,

Við bjóðum ykkur velkomin á viðburð ársins í íslenskum körfubolta. Slagurinn um vesturland. Skallagrímsmenn höfðu nauman sigur í fyrri leik liðanna á tímabilinu og stefna sjálfsagt að halda heiðrinum hinumegin við Melasveitina.

Eins og flestir vita sem lesa þennan pistil hafa ÍA og Skallagrímur lengi eldað grátt silfur saman á körfuknattleiksvellinum. Hvernig sem stigatöflunni líður þá hafa þessir leikir sérstaka meiningu í huga beggja liða – sem og aðdáenda. Þetta eru leikirnir sem skal vinna!

Við bjóðum frændur okkar Borgnesinga velkomna í heimsókn en þeir sitja sem stendur í öðru sæti deildarinnr og eru ósigraðir á árinu í deildinni með þrjá sigra. Skagamenn sitja hins vegar í fimmta sæti með helmings sigurhlutfall, með tvo sigra og tvö töp.

Okkur er alveg sama – við viljum bara sigra!
Þorgeir Ragnarsson
Áhugamaður um körfubolta

 

17.02.12  ÍA – Þór

Kæru stuðningsmenn, Þau eru ekki mörg leyndarmálin sem Akranes og Akureyri deila. En miðherjinn myndarlegi og magnaði, Jón Orri Kristjánsson, Íslands- og bikarmeistari með KR, hefur spilað með bæði ÍA og Þór. Ritstjóri Leikskránnar hitti kappann við tölvuskjáinn og spjallaði við hann. Jón Orri er að vanda hógværðin uppmáluð en vitalið í heildsinni má kaupa á midi.is einhvern tímann í framtíðinni.
Sæll Jón Orri, þú ert myndalegur í dag?
„Já og þú sömuleiðis“
Takk, hér koma nokkrar persónulegar spurningar sem brenna á aðdáfendum þínum:
Körfubolti eða fótbolti?
„Er frábær í báðum íþróttum, þetta væri eins og að gera upp á milli barnanna sinna.“
Skagamaður eða vesturbæingur?
„Skagamaður sem býr í Kópavogi en eyðir töluverðum tíma í vesturbænum.“ Íslands- eða bikarmeistari? „Íslands, þar sem við erum dottnir útúr bikarnum þetta árið.“ (innskot frá Ritstjóra: Eins og fleiri stórlið)
Pavel Ermolinski eða Fannar Helgason?
„Pavel er miklu betri í körfubolta en Fannar er mun betri í eldhúsinu! Hafa þó báðir frekar ömurlegan tónlistarsmekk.“
Er eitthvað til í því að þú sért alltaf fallegastur í þeim liðum sem þú spilar með?
„Já þið getið rétt ímyndað ykkur.“
Jaðarsbakkar eða Vesturgata?
„Vesturgata allan daginn. Hef þó ekkert á móti Jaðarsbökkum en Vesturgatan er eitt af skemmtilegri íþróttahúsum á landinu. Skrýtin lykt, dauðir blettir í gólfinu og steyptir áhorfendabekkir eiga sinn þátt í stemmningunni.“
ÍA eða Þór? „Þar sem flestir sem ég spilaði með í Þór eru hættir eða farnir annað segi ég ÍA hiklaust í kvöld 🙂 “
Nú hefur þú leikið bæði með ÍA og Þór. Ahverju ertu í KR?
„Góð spurning …“
Ætlaru að koma á leikinn á föstudaginn?
„Já verður hópferð með stórum parti af stjórn Körfuknattleiksfélags ÍA. Vá mér finnst þeir æðislegir.“

 

Ritstjóri Leikskrárinnar

24.02.12  ÍA – FSu

„Þú ert orðin algjör körfuboltabulla, mamma“

Um síðustu helgi var ég að horfa á síðasta leikinn hjá The Saints, sem Vésteinn spilar með í Iowa. Þetta var mjög spennandi leikur og tvær framlengingar og ég alveg að missa mig. Dóttir mín hafði á orði eftir leikinn: „Þú ert orðin algjör körfuboltabulla, mamma“ og sennilega er það bara rétt. Haustið 2011 fór ég á námskeið í Boston og dreif mig ein á körfuboltaleik og horfði á Boston Celtic spila á móti New Jersey Nets. Það var mjög sérstök tilfinning að sitja þarna eftir að hafa horft á marga NBA leiki með Vésteini í sjónvarpinu. Ógleymanlega upplifun, sem ég hefði ekki viljað missa af.

Það hefur samt verið meiri upplifun fyrir mig að vera þátttakandi í körfuboltanum hérna á Akranesi með ÍA og á Selfossi með FSU. Fáir hefðu trúað því að ég ætti eftir að verða formaður í íþróttafélagi, en það gerðist nú samt. Þau ár sem ég var formaður vann ég með frábæru fólki og það var ótrúlega skemmtileg reynsla. Brynjar Karl þjálfaði liðið á þessum tíma og átti hvert bein í drengjunum. Það er mikið ánægjuefni fyrir mig að mæta hér á leiki núna og sjá marga af þessum drengjum spila með liðinu núna.

Oft höfum við nokkur rætt um að ÍA hafi þjálfað marga góða körfuboltamenn og væri gaman að sjá þá alla koma saman og spila með ÍA. Það er nú kannski fjarlægur draumur, en gaman væri samt að safna þeim saman til að spila eins og einn leik. Geta draumar ekki ræst?

Ég var mjög dugleg að mæta á leiki í fyrravetur. Ég átti þess hins vegar ekki kost að mæta oft fyrir jól en eftir áramótin hef ég mætt á heimaleikina og hlakkað til alla vikuna. Það gengur auðvitað misvel að spila, stundum vinnur liðið og stundum tapar það. Það skiptir kannski ekki máli þegar upp er staðið, heldur það að spila vegna ánægjunnar. Það er gaman að geta gert það sem maður elskar að gera. Það að drengirnir eru ennþá að spila sýnir að körfubolti er eitthvað sem skiptir þá miklu máli.

Mér finnst líka gaman að sjá hve margir eru mættir til leiks til að aðstoða og hjálpa til og eins hversu margir mæta á leikina. Það er því fleira en leikirnir sjálfir sem gleðja mitt gamla hjarta.

Nú hef ég gerst styrktarfélagi liðsins og greiði ákveðna upphæð mánaðarlega. Gætir þú ekki, ágæti lesandi, hugsað þér að gerast styrktarfélagi og styðja þannig við starf félagsins?

 

Borghildur Jósúadóttir

Körfuboltabulla og fyrrv. Formaður KFA

02.03.12  ÍA – Breiðablik

Síðasti heimaleikurinn – í deildinni

Velkomin á „síðasta heimaleikinn“ í deildinn.

Í síðasta leik náðum við að tryggja sæti okkar í 1. deild að ári og er þetta í fyrsta sinn síðan árið 2001 sem okkur tekst það.

Árið 2001 endaði ÍA í 8. sæti 1. deildra en féllu svo ári síðar. Við tóku tvö tímabil í 2. deild en liðið vann sér sæti í 1. deildinni árið 2004. Liðið féll svo árið 2005 í 2. deild en vann sér svo aftur sæti í 1. deild árið 2009 með því að sigra 2. deildina. Liðið féll þó aftur niður í 2. deild árið 2010 en vann sæti sitt aftur strax ári síðar. Við tók yfirstandandi tímabil og er nú orðið ljóst að ÍA mun spila í 1. deildinni að ári eins og áður sagði. Það sem gerir þetta ennþá skemmtilegra er að á sama tíma og við erum að tryggja sætið okkar í deildinni eigum við ennþá möguleika á að ná 5. Sæti deildarinnar sem gefur þátttökurétt í umspili um laust sæti í Úrvalsdeildinni… Þetta er árangur sem við erum mjög stolltir af!

 

Nr. 15 – Dagur Þórisson

 

Talandi um árangur sem við erum stolltir af. Dagur Þórisson leikur í kvöld sinn 304. leik fyrir meistaraflokk ÍA og er fyrsti leikmaðurinn til að rjúfa 300 leikja múrinn og að sama skapi leikjahæst leikmaður meistaraflokks ÍA frá upphafi.

Dagur hóf feril sinn með meistaraflokki ÍA árið 1990 og lék með félaginu út tímabilið 1999. Þá skipti hann fyrir í Grindavík og lék með þeim 66 leiki en tók sér svo frí í tvö tímabil. Síðan kom Dagur kom aftur heim 2004 og hefur spila með okkur allar götur síðan. Þetta þýðir að leikurinn í kvöld er 370. leikur Dags Þórissonar með meistaraflokki í keppnum á vegum KKÍ. Ferill Dags telur því 20 tímabil sem er ótrúlegur árangur og segir okkur hvað við erum að tala um magnaðan íþróttamann. Það verður því gaman að fylgjast með okkar manni á næsta tímabili sem verður hans 21. á ferlinum með meistaraflokki.

Körfuknattleiksfélag Akranes – ÍA

 

 

19.10.12  ÍA – Höttur

Kæru stuðningsmenn,

Fyrst af öllu, gleðilegt nýtt körfuboltatímabil og takk fyrir það liðna.

Það er mikil tillhlökkun sem fylgir því að nú hefst nýtt tímabil eftir flottan árangur í fyrra.  Það er þó löngu ljóst að maður lifir ekki á fornri frægð og því hafa strákarnir lagt á sig mikla vinnu í allt sumar til að mæta tilbúnir til leiks og við byggjum vonir við að þeir muni hafa erindi sem erfiði.

Hópurinn okkar í ár er lítið breyttur frá því í fyrra, Dagur Þórisson er mættur á sínu 21. tímabili í meistaraflokki, Körfuknattleiksmaður Akranes 2011 Áskell Jónsson verður áfram í treyju númer 8, Birkir lofar að hlaða niður eins og nokkrum þristum, Hörður ætlar að verja Mr. Clutch Jr. Titlinu, Zo ætlar að hlaupa menn uppi og stela af þeim boltanum, Ómar mun berjast eins og ljón, Guðjón Smári ætlar að toppa alla í formi, Böddi ætlar að láta alla andstæðingana hafa fyrir hlutunum, Þorleifur ætlar ekki að gefa neitt, Siggi Rúnar mun bjóða upp á kodak-móment og Jón Rúnar ætlar að plata menn til hægri en fara til vinstri – eða var það öfugt?
Síðan bjóðum í kvöld velkominn í sinn fyrsta heimaleik í deildinni Elfar Már Ólafsson sem gekk til liðs við okkur nú fyrir þetta tímabil.  Hann ætlar að sýna okkur eitthvað alveg nýtt.
Síðan á Trausti eftir að standa undir nafni, Öddi eftir að reyna við Mr. Clutch Sr. og Sigursteinn eftir að sýna ykkur hvað hann getur.
Við í stjórn Körfuknattleiksfélags Akraness trúum því að við séum með gott lið í höndunum sem sé líklegt til afreka í vetur.  En það breytir því ekki að við treystum því einnig að við munum fá sama stuðning af áhorfendapöllunum og í úrslitakeppninni í fyrra – því okkar stuðningsmenn þá voru hreint út sagt frábærir.  Takk fyrir stuðninginn.

Velkomin í Jaðarsbakkana og vonandi eigum við eftir að sjást sem oftast í vetur.


Áfram ÍA
Stjórn Körfuknattleiksfélag Akraness

22.11.12  ÍA – Haukar

 

Hvers vegna erum við hér?

Körfubolti er ein skemmtilegasta írþóttin til að stunda og horfa á,
í þessum heimi a.m.k..  En hvernig varð þetta allt saman til?
Það má segja að körfuboltinn hafi fæðst þann 6. nóvember á því herrans ári 1861. Því þá fæddist í Ontarion fylki í Kanada maður að nafi James Nasmith.  Sagan er þannig að árið 1891, þegar miklir kuldar gengu yfir norðausturhluta bandaríkjanna, var okkar maður, Naismit, kennari í kristilegum skóla í Springfield í Massachusetts og veðrið hafði þau áhrif á nemendur að  þeim leiddist í skólanum – nokkuð sem einungis veður getur orsakað – en þau gátu ekki með nokkru móti stundað íþróttir utandyra.  Þetta hafði í för með sér að yfirmaður íþróttardeildar skólans auglýsti eftir íþrótt sem stunda mæti yfir veturinn og Naismit  gekk strax út frá því að finna upp íþrótt sem einkenndist af keppni milli liða.  Eftir nokkra kokteila blandaða með amerískum fótbolta, hornabolta, hraða og áreynslu auk nokkrurra annara atriða þá hengdi hann upp ferskjukörfur úr tré úr mötuneyti skólans á svalir íþróttahúsins, en þær voru einmitt 305 sentimetrar að hæð.  Í framhaldinu var ákveðið að leikurinn skildi ganga út á að hitta bolta ofan í þessar körfur.
Það var því vel við hæfi að gefa þessari nýju íþrótt nafnið körfubolti.
Nú rétt rúmu 121 ári síðar erum við hér saman komin til að njóta afraksturs þessarar hugmyndar Herra James Naismith – og  einnig að fá það staðfest að vont veður getur líka leitt af sér eitthvað gott.  Kalhæðinislegt að þessi leikur átti að fara fram þann 2. nóvember en var fresta og ástæðan: upphaf körfuboltans – vont veður.
Takk fyrir hugmyndina vinur.

5 aurinn
Í körfubolta er ekki gott að taka of mörg skref með boltann,
nema það séu skref í rétta átt.

7.12.12 ÍA – Valur

Sögulegur jólapakki

Körfuknattleiksfélag Akraness var stofnað árið 1986.  Á þessum 26 árum sem félgaði hefur verið til hefur liðið leikið í öllum deildum KKÍ og einnig tekið þá í bikarkeppnum sambandsins.

Þar sem það eru nú alveg að koma jól þá ætlum við hér í leikskránni að opna einn skemmtilegan sögupakka frá þessum árum.

Þannig var að það tók liðið 10 ár að komast í úrslitaleik bikarkeppni KKÍ þar sem liðið mætti Haukum úr Hafnafirði árið 1996.   En sá leikur var ekki bara sögulegur fyrir þær sakir að ÍA væri í fyrsta skipti í 10 ára sögu félagsins í úrsltialeik bikarsins heldur var þetta einnig í fyrsta sinn í tíu ár, þ.e. síðan 1986, sem hvorugt liðið í úrslitaleiknum kom af suðurnesjunum.  Gaman að segja frá því.

Að lokum þökkum við ykkur fyrir komuna og stuðninginn á árinu.
Við óskum ykkur gleðilegra jóla og farsældar á komandi ári.

Hlökkum til að sjá ykkur á nýju ári.

Áfram ÍA

5 aurinn
Það getur verið gott að taka fráköst
innan vallar sem utan.