Lítið er vitað um hvenær karate varð í raun til. Þó eru til heimildir um Buddamunkinn Duruma (Bodhidharma), upphafsmann Zen Búddisma, sem var uppi á 6. öld. Sagan segir að Duruma hafi ferðast frá Indlandi til Kína til að kenna Zen Búddisma. Að hans mati uppfylltu nemendur hans ekki þá líkamlegu og andlegu kröfur sem hann taldi þurfa til að stunda Búddisma. Til að byggja upp styrk og þol nemenda sinna setti hann saman kerfi sem saman stóð af öndunaræfingum og kínversku Kenpo, til að byggja upp líkama og hug.

 

Aðferðir hans voru kenndar í munkaklaustrinu í Shaolin musterinu í Kína og þar voru þær þróaðar yfir í bardagalist sem þekkt er sem Shaolin Box. Buddamunkar ferðuðust um víða og kenndu þessar listir. Voru þeir þekktir fyrir bæði andlegt og líkamlegt þol sem og mikla bardagatækni. Upp frá þessu fóru hin ýmsu afbrigði bardagalistarinnar að þróast í hinum ýmsu héruðum Kína.

 

Á sextándu öld er talið að einhver afbrigði Shaolin Box hafi borist til Okinawa, sem er eyja fyrir utan Japan. Þar hafi það blandast saman við þá tækni sem Okinawabúar notuðu í vopnlausum bardaga og haldið svo áfram að þróast yfir í hina ýmsu stíla. Vopnaburður almennings á Okinawa var bannaður í kjölfar hernáms Japana á eyjunni á 17. öld. og hefur það eflaust ýtt undir þróun þeirrar tækni sem var notuð í vopnlausum bardaga.

 

 

Shotokan karate

 

Þann 10. nóvember árið 1868 fæddist Gichin Funakoshi, stofnandi Shotokan Karate, í Shuri sem þá var höfuðborg Okinawa. Hann hóf að stunda karate 11 ára gamall og kynntist hinum ýmsu tegundum og afbrigðum bardagalista sem stundaðar voru á eyjunni. Funakoshi lærði hjár tveimur mestu meisturum síns tíma, Yasutsune Azato og Yasutsune Itosu „Anko“.
Azato, sem var að aukisnillingur í bogfimi og skylmingum, sá um menntun Funakoshi. Azato var einnig eignað það að hafa komið á kné besta skylmingarmeistara þess tíma með berum höndum.

 

Funakoshi var svo leikinn að hann var vígður inn í alla stærstu Karate-stílana á Okinawa. Shotakan Karate mótaði hann á grunni bardagalistar sem þróaðist í kringum borgina Shuri og þorpið Tomari á Okinawa á 18. og 19 öld. Sú bardagalist var í nokkru ólík þeirri bardagalist sem almennt var stunduð á eyjunni. Hún hafði mótast af japanskri bardagalist, nánar tiltekið skylmingarlistinni Jigen Ryu Kenjutsu.

 

Árið 1917 var Funakoshi valinn til að fara til Kyoto á meginlandi Japan til að sýna opinberlega. Hann notaði orðið Karate yfir þá bardagalist sem hann sýnd. Fimm árum síðar, eða árið 1922, fór Funakoshi aftur til meginlandsins að sýna Karate. Í þetta sinn fór hann fyrir hópi Karateka (karateiðkendur) til Tokyo til að sýna bardagalist á mikilli íþróttasýningu. Þá var Funakoshi forseti Sambands Okinawa um anda bardagalista. Eftir sýninguna var Funakoshi hvattur af vinum sínum og öðrum til að vera áfram í Tokyo og kenna þessa bardagalist og snéri hann því ekki aftur til Okinawa.

 

Eftir að hafa búið í nokkur ár á stúdendagörðum hafði Funakoshi loks ráð á að stofna sinn eigin karateskóla. Skólann stofnaði hann í Tokyo árið 1936. Nemendur hans nefndu skólann Shotokan, sem merkir hús Shoto en það var pennanafn Funakoshi sem einnig var ljóðskáld. Þetta var til þess að bardagastíll Funakoshi fékk nafnið Shotokan Karate. Með stofnun karateskólans í Tokyo gerðist Funakoshi helsti frumkvöðull nútíma karate og hin forna bardagalist breiddist hratt út um Japan og síðar út til annarra landa og átti Funakoshi einnig ríkan þátt í þeirri útbreiðslu.