Kata er röð fyrirfram ákveðinna hreyfinga sem iðkandinn þarf að framkvæma í réttri röð, á réttum hraða og með réttum áherslum. Segja má að hreyfingarnar myndi ímyndaðan bardaga við nokkra ósýnilega andstæðinga.

 

Kata eru mismunandi og mismargar eftir karatestílum. Í Shotakan eru 26 kata iðkaðar. Kata er ævagömul æfingar- og kennsluaðferð sem karatemeistarar fyrri tíma settu saman til að auðvelda nemendum sínum að muna þá tækni sem þeim var kennd. Fyrr á öldum var lítið um að íbúar á Okinawa og Japan væru læsir eða skrifandi. Bæði eru táknin sem þeir nota mörg, u.þ.b. 25.000 í kanji sem er ein tegund leturs, og því mjög erfitt að læra, auk þess sem rík hefð var fyrir því að bera sögur milli kynslóða í formi munnmæla og dansa. Það var því eðlilegt að meistarar þess tíma settu tækni sína saman í kata sem þeir gátu kennt nemendum sínum og þeir síðan kennt áfram án þess að nein tækni gleymdist.

 

Þannig hafa sumar kata lifað nánast óbreyttar, jafnvel í nokkur hundruð ár. Það má því með sanni segja að þær 26 kata sem eru í Shotokan séu gagnagrunnur þess stíls. Því ásamt því að kenna nemendum sínum varnir, kýlingar og spörk og hvernig þeir áttu að nota þá tækni sem þeir lærðu, tryggðu þeir einnig að ekkert myndi gleymast. Þegar nemandinn var búinn að læra kata, einhverjar eða allar og kominn með grunninn, var það hans að fara dýpra í merkingu og nýtingu hverrar tækni og auka við þekkingu og reynslu sína. Og þannig er það sem iðkandinn er alltaf að læra og uppgötva eitthvað nýtt, því maður hættir aldrei að læra karate.

 

Kata er önnur tveggja keppnisgreina í karate.