Karatestíllinn sem iðkaður er hjá Karatefélagi Akraness kallast shotokan og er félagið aðili að Shotokankarate-sambandi Íslands (SKSÍ) og Karatesambandi Íslands (KAÍ).

 

Orðið karate merkir tóm hönd og vísar til þess að karate er bardagalist þar sem barist er án vopna.
Karate er einhver sú besta, ef ekki sú allra besta, sjálfsvarnar- og bardagaíþrótt sem völ er á. En er karate þá bara slagsmál? Nei, svo er alls ekki. Í karate þroskast viðbragð, sjálfstjórn, viljastyrkur og framkoma, sem er mjög áríðandi til að ná góðum árangri í íþróttinni og í lífinu almennt. Sem íþrótt er karate sérlega spennandi, skemmtileg og athygliverð.
Í karatekeppni á aðeins að sýna sókn og vörn þannig að óhöpp eiga ekki að geta átt sér stað. Einnig er talið að fáar eða engar íþróttagreinar þjálfi á jafn víðtækan hátt vöðva líkamans, andardrátt og bæti líkamlegar hreyfingar eins og karate.

 

Það besta er að allir geta stundað karate og það er aldrei of seint að byrja. Það krefst engra sérstaka hæfileika. Iðkandinn setur sér sín eigin takmörk og þjálfar sig innan þeirra undir handleiðslu og tilsögn Sensei / Sempai (meistara / kennara). Og það besta er: Þú ert aldrei búinn að læra karate. Þú verður betri og betri en það er alltaf eitthvað sem betur má fara og þannig hefurðu alltaf eitthvað til að stefna að.

 

Hvort sem karate er æft sem keppnisíþrótt, líkamsrækt eða sjálfsvörn skiptir ekki máli. Karate gerir iðkandann alltaf að betri manni, sé það stundað með réttu hugarfari. Gichin Funakoshi, stofnandi Shotokan Karate sagði oft við nemendur sína, „Andi karate er einskis virði án hæversku og kurteisi“. Þetta eru orð sem vert er að hafa í huga.

 

Kennslu í karate má í fljótu bragði skipta upp í þrjá megin flokka: Kihon (undirstöður / grunnur), Kata (samsettar hreyfingar í ákveðinni röð) og Kumite (bardaga).