Hestamannafélagið Dreyri

 

Hestamannafélagið Dreyri var stofnað 1. maí 1947 og státar því af 60 ára afmæli í ár.

 

Þann 1. maí síðastliðin var því mikið um að vera í Æðarodda félagsheimili/aðstöðu dreyra, þar sem haldið var upp á afmæli félagsins með skemmtunum, keppni, sýningum, hópreið og mikilli kökuveislu. 

 

Dreyrafélagar hafa sjaldan fjölmennt eins vel eins og í hópreiðinni þennan dag og mátti sjá fagran hóp hestamanna stórra sem smárra ríða fylltu liði frá Barðanesi að Félagsheimilinu Æðarodda.  Gaman var að sjá hestamennina klæðast félagsbúningi Dreyra frá upphafi til dagsins í dag og hefur hann breyst töluvert á þessum 60 árum.  Allt frá gulu skikkjunum sem fyrst voru notaðar og að vínrauðu jökkunum og hvítu reiðbuxanna sem nú eru einkennisklæðnaður dreyrafélaga.

 

Formaður Dreyra, Dóra Líndal Hjartardóttir bauð fólk velkomið og sagði frá viðburðum dagsins.

 

Hin árlega Firmakeppni var á sínum stað og voru 9 fyrirtæki dregi út af þeim 9 aðilum sem stóðu uppi sem sigurvegarar dagsins.  Þessi 9 fyrirtæki sjá svo um að varðveita verðlaunabikarana þangað til á næsta ári.  87 fyrirtæki styrktu okkur að þessu sinni og þökkum við þeim kærlega fyrir stuðninginn.

 

Julio Cesar Gutierrez tamningamaður frá Úrúgvæ sýndi frábæra takta með snöruna þar sem hann geystist um svæðið með snöruna á lofti á eftir tveim karlkálfum sem ekki voru á því að láta ná sér.  Annar „kálfanna“ var þó frárri á fæti en sá fyrri, en báðir urðu þeir að láta sér linda að verða snaraðir fyrir rest af kúrekanum lipra.

 

Nemendur á námskeiði Lárusar Hannessonar reiðkennara og tamningarmanns sýndu kunnáttu sýna og færni á hestum sínum og var gaman að sjá hversu dugleg börnin og unglingarnir voru. Þar sást að maður þarf ekki að vera hár í loftinu eða gamall að árum til að geta látið stóran hest lúta að vilja sínum.   

 

Tveir „eldri“ landsmótsfélagar mætti líka galvaskir á svæðið og sýndu áhorfendum gömul og góð tilþrif á vellinum. Mátti sjá á klæðnaði þeirra, reiðmennsku og háttalagi að þar færu eðalknapar á ferð sem gert hefðu góða hluti á vellinum með gæðingum sínum um ævina.  Heldur urðu þeir þó þyrstir af sprettinum og sást til þeirra fara af baki, hvíla lúin bein og vökva kverkarnar í miðri sýningu.  En flottir voru félagarnir og vonandi eiga þeir eftir að koma oftar í heimsókn á fákum sínum þegar búið er að fylla á drykkjarílátin.