Hvað eru fimleikar ?

Fimleikar er íþrótt sem felur í sér ýmsar æfingar. Marga þætti þarf til að verða góður fimleikamaður; styrkur, liðleiki, samhæfing, snerpa/hraði og jafnvægi. Mjög mikilvægt að hafa góða líkamsvitund. Þar sem unnið er að þessum þáttum þá verður hreyfiþroskinn oft á tíðum mikill miðað við aðrar íþróttagreinar. Fimleikar eru stýrðir af Alþjóðafimleikasambandinu (FIG) og UEG sem er Evrópska fimleikasambandið. FSÍ er fimleikasamband Íslands sem stýrir öllu hér á landi.

Hér hjá FIMA eru aðallega stundaðir hópfimleikar (hópíþrótt) en einnig er hægt að keppa í Stökkfimi með þau stökk sem iðkandinn kann/getur að hverju sinni og það eru einstaklingsmót. Einnig höfum við Parkour sem eru „götu fimleikar“ en lesa má aðeins meira um það undir „Parkour“. Ásamt því höfum við öflugan íþróttaskóla fyrir 1-5 ára á laugardögum. Hægt er að æfa fimleika frá 5 ára aldri. Hjá FIMA iðka um 450 ungmenni á Akranesi einhverskonar fimleika.

Þegar iðkendur byrja þá fara þeir í svokallaða „Almenna fimleika“ og læra grunn sem er mikilvægur svo hægt sé að byggja á til framtíðar. Um 8-9 ára færast iðkendur í hópfimleika og læra þar t.d. dans. Áherslur eru mismunandi eftir aldri en ávallt er lagt mikið upp úr samhæfingu.

Hópfimleikar

Keppt er eftir teamgym code of points sem eru reglur fyrir hópfimleika. En fyrir yngri flokka eru veittar undanþágur. Keppt er í 5.-1.flokk og svo í meistaraflokki. 5 flokkur eru 9 ára, 4.flokkur eru 10-11 ára, 3.flokkur 11-13 ára, 2.flokkur 14-15 ára og 1.flokkur 15 – 17 ára. Eftir það er keppt í meistaraflokki en mikið er um það á Íslandi að keppt sé í meistaraflokk um 16 ára og eldri því að liðið er jafnvel skipað með einstaklingum 18 ára og eldri.

Í hópfimleikum er keppt á þremur áhöldum: gólf (dans), dýna og trampólín (trampólín og hestur). Í hópfimleikum er hægt að keppa sem kvennalið/stúlknalið, karlalið/drengjalið og svo mixlið (blandað lið). Áherslur á æfingum fara eftir aldri og getu og skipt er í flokka eftir aldri.

Erfiðleikakröfurnar aukast eftir því sem líður á. Á ákveðnum tímapunkti getur framkvæmdarstjóri/yfirþjálfari/þjálfarar skipt í hópa/lið eftir aldri og getu einstaklingana. Leitast er eftir því að raða í hópana þannig að hvert lið æfi saman. Einstaklingarnir eru metnir út frá getu, reynslu, styrk og hversu auðvelt hann á með að fylgja fyrirmælum. Leitast er eftir því að raða í hópanna þannig að félagið fái sem sterkustu liðin. Hverjum flokki er skipt upp í A, B, C lið eftir því hver fjöldi iðkanda er. Þegar raðað er í lið/hópa er metið hvaða liðsumferð er hægt að vinna með ásamt því að einstaklingarnir í hópnum geti svipaðar æfingar á gólfi (dansi). Einstaklingar með svipaða færni eru valdir saman í lið.

Á gólfi dansar allur hópurinn saman, en reglan er yfirleitt sú að maður verður að vera með í dansi til að geta keppt á öðrum áhöldum. Þar eru t.d. reglur sem þarf að fylgja, annars kemur til frádráttar. Í reglum er m.a. munstur (vera í munstri, halda því), val æfinga (æfingar í takt við lagið, fjölbreyttar ofl), samsetning (að dansinn sé vel samsettur og gott flæði sé í honum), æfingar (píróettar, hopp, akróbatik æfing (handahlaup, flikk o.fl,), jafnvægi/kraftæfingar og samvinna). Að lágmarki geta 6 dansað en að hámarki 12 iðkendur.

Á dýnu er keppt á svokallaðri fiberbraut. Þar fer eftir flokkum hversu margar umferðir eru gerðar. Í 5.-4.flokki eru tvær umferðir; ein framumferð (krafstökk, handahlaup, heljarstökk) og ein umferð afturabak (arabastökk, flikk, afturábak heljarstökk). Í 3.flokki og eldri er keppt með þrjár umferðir (ein fram, ein afturábak og ein umferð sem má vera blönduð). Því erfiðari æfingar því hærri upphafseinkunn – en mikilvægt að framkvæma vel. En þar kemur til frádráttar ef framkvæmdin er illa gerð (hendur og fætur bognir, detta við lendingu…). Í fyrstu umferð verða allir að gera sömu stökkin/sömu æfinguna. En í hinum umferðum má breyta, hafa stíganda (erfiðustu stökkin aftast).

Trampólín: Þá er stokkið af litlu trampólíni og gerð ýmis stökk í loftinu t.d. heljarstökk, skrúfur, tvöföld eða þreföld heljarstökk og jafnvel með skrúfum líka. Ein umferð þarf að vera yfir hest (yfirslag, hálfur inn-hálfur út, tsukahara eða yfirslag-framheljar (kasamatzu). 5.-4.flokkur keppa með 2 umferðir, ein á trampólíni og ein yfir hest. 3.flokkur og eldri keppa með þrjár umferðir og þar af verður a.m.k. ein að vera yfir hest. Í 2.flokki, 1.flokki og meistaraflokki mega einungis 6 gera í hverri umferð en í 3.flokki og yngri má hafa allt að 12 iðkendur í umferð. Í fyrstu umferð verða allir að gera sömu stökkin/sömu æfinguna. En í hinum umferðum má breyta, hafa stíganda (erfiðustu stökkin aftast).

Allir keppendur þurfa að vera í eins göllum/búningum/fatnaði (fer eftir aldri) og snyrtilega greiddir með hárið frá andliti. Skartgripir eru ekki leyfðir þar sem þeir geta skaðað iðkendur og þjálfara.

Keppni, þátttaka og skráning á mót !! – Lesa vel.

Þegar keppt er skal skrá iðkandann í Nóra tímanlega – fyrir ákveðna dagsetningu. Eftir þann tíma þarf að hafa samband við fimleikafelag.akraness@gmail.com og skrá þar en þá þarf að greiða eitt og hálft mótagjald og viku fyrir keppni er tvöfalt mótagjald. Dómarar dæma og gefa einkunn. Hópurinn hefur ákveðinn erfiðleika (fer eftir stökkum) og svo fá keppendur einkunn fyrir framkvæmd og samsetningu. Einnig getur erfiðleikinn breyst í keppni ef iðkendum mistakast eða gera betur en áætlað var. Sá vinnur sem fær hæstu einkunn.

Keppt er á mótum á vegum FSÍ ásamt innanfélags-og vinamótum. Keppt er eftir reglum Code of Points (TEAM GYM) ásamt þeim undanþágum sem FSÍ gefur út á íslenskum mótum.

Mikilvægt er að hafa fallega framkvæmd; tæknilega og líkamlega. Hvað líkamann varðar þá er það: strekktar ristar, beinir hand-og fótleggir, beinn líkami (við á) og mikilvægast af öllu er að lenda stökkin sín – ekki detta J En það er mesti frádrátturinn.

 

Tryggingamál !!

 • Athugið að iðkendur eru á eigin vegum við iðkun fimleika
 • Öll börn á grunnskólaaldri 6-15 ára eru tryggð á vegum Akraneskaupstaðar
 • Yngri en 6 ára og eldri en 15 ára eru ekki tryggð!
 • Við mælum með að kynna sér slysa-og örorkutryggingu fyrir börnin – ATH að þær eru misjafnar eftir tryggingafélögum – sum tryggingafélög skilgreina fimleikafólk sér en ekki undir íþróttafólk.

Leiðbeiningar til að ná sem bestum árangri í þjálfun á heilbrigðum líkama

 • Nóg af heilbrigðum og næringaríkum mat – Munið kæru foreldrar/forráðamenn að börnin borða það sem er til heima hjá þeim J
 • Borða reglulega (Dæmi: Morgunmat – millimál – hádegismatur – millimál – kvöldmatur – kvöldkaffi ?)
 • Taka inn lýsi (d-vítamín, omega-3)
 • Drekka vatn
 • Sofa vel – amk. 8 klst fyrir eldri og börn í 10-12 klst.
 • Heitt bað eða sturta eftir allar æfingar; temja sér snyrtimennsku og þá jafnar líkaminn sig eftir æfingar.
 • Útiæfingar og leikir til að fá ferskt loft og súrefni í líkama og efla hreyfiþroska.

Foreldrar og aðrir sjálfboðaliðar

Foreldrar og aðrir sjálfboðaliðar eru mjög mikilvægir aðilar sem geta aðstoðað fimleikafélagið við að efla félagsstarfið, allan aðbúnað og aðstöðu deildarinnar, þannig að deildin og íþróttin eflist og blómstri. Það þarf að efla foreldrastarf og sjálfboðaliðun og aðkomu forráðamanna að starfi okkar hjá FIMA. Reynslan hefur því miður verið sú að að of fáir vinna mikið starf fyrir alla – við viljum virkja fleiriJ. Við hvetjum því foreldra til að taka þátt í starfinu okkar og efla það til muna. Endilega bjóða fram aðstoð þegar þörf er á; nefndir, flutningar, mótahald, undirbúningur fyrir æfingaferðir erlendis o.m.fl. – Þá sérstaklega baráttu um nýtt húsnæði fyrir FIMA!

Nýjar rannsóknir benda til þess að einn mikilvægasti þáttur forvarna er styrkur foreldrastarfs í félögum – að foreldrar eru virkir í íþróttastarfi barna þeirra. Því meiri innbyrðis tengsl því betra.