1996 – 2006

Á þessum áratug koma inn nokkrar nýjar íþróttagreinar í íþróttaflóru bæjarins, Keilufélag Akraness er stofnað 1997 og undir merkjum Ungmennafélagsins Skipaskaga er lagt stund á línudans, frjálsar íþróttir og hnefaleika.

Árið 1996 varð Birgir Leifur Hafþórsson kylfingur úr Golfklúbbnum Leyni Íslandsmeistari í golfi. Félagi hans úr Leyni Þórður Emil Ólafsson fylgdi síðan í kjölfarið og varð Íslandsmeistari árið 1997. Badmintonspilarinn Drífa Harðardóttir varð Íslandsmeistari í tvenndarleik árið 2003 og aftur í tvíliða- og tvenndarleik árið 2004.

Skagamenn urðu Íslandsmeistarar í knattspyrnu karla árið 2001 og bikarmeistarar árin 2000 og 2003. Ný sunddrottning steig fram á sjónarsviðið, þar sem Kolbrún Ýr Kristjánsdóttir setti fjöldann allan af metum og keppti á Ólympíuleikunum í Sidney árið 2000 og aftur í Aþenu árið 2004. Akraneshöllin fjölnota íþróttahús Akurnesinga er vígt að Jaðarsbökkum 21. október 2006. Í tilefni af 60 ára afmæli ÍA og vígslu hallarinnar heiðraði ÍA 29 einstaklinga sem unnið hafa ötullega innan hreyfingarinnar á liðnum áratugum.