Fjórða árið í röð sýna eigendur og starfsmenn Skagans – Þorgeirs & Ellert mikinn rausnarskap með því að styrkja íþróttahreyfinguna á Akranesi um 3 milljónir króna.  

Fyrir þann stuðning sem Íþróttabandalagið finnur í orðum og í verki er bandalagið mjög þakklátt. Styrkurinn er mjög mikilvægur fyrir starfið sem unnið er í aðildarfélögum ÍA.   Síðatliðin þrjú ár hefur samtals níu milljónum króna verið úthlutað úr sjóði sem Skaginn – Þorgeir og Ellert stofnuðu til að styrkja barna- og unglingastarf ÍA.

Margvísleg verkefni hafa hlotið styrki allt frá eflingu einstakra íþróttagreina og til að senda leiðbeinendur á þjálfaranámskeið.   Við hjá ÍA þökkum enn á ný stórhug eigenda og starfsmanna Skagans – Þorgeirs & Ellerts.  

Íþróttabandalagið hvetur aðildarfélög sín til þess að sækja um styrk úr þessum sjóði með því að senda inn umsókn á netfangið ia@ia.is fyrir 15. febrúar næstkomandi.  

Íþróttabandalag Akraness.