Sveinn Teitsson fyrrum knattspyrnukappi er látinn 86 ára að aldri

Sveinn Teitsson fyrrum knattspyrnukappi og málarameistari er látinn 86 ára að aldri.

Með Sveini er genginn mikill sómamaður sem var meðal bestu knattspyrnumanna á Akranesi um árabil.  Hann var leikmaður ÍA á árunum 1949-1964 og einn besti leikmaður gullaldarliðsins. Hann er sá síðasti sem kveður af þeim leikmönnum sem urðu Íslandsmeistarar 1951. Sveinn lék á sínum ferli 196 leiki fyrir ÍA og var Íslandsmeistari 1951, 1953, 1954, 1957, 1958 og 1960 . Þá lék hann 23 landsleiki á árunum 1953-1964 og skoraði tvö mörk í þessum leikjum m.a eftirminnlegt mark í jafnteflisleik gegn Dönum 1959. Hann var fyrirliði landsliðsins í fjórum leikjum.

Sveinn var fæddur 1 mars 1931 á Akranesi en hafði búið í Reykjavík um árabil. Börn hans voru þrjú Halla sem er látinn, Árni og Unnur.

Sveinn var eftirminnileg persóna, enda stutt í glens og spaugileg atvik hjá honum.  Hann var fastagestur á leikjum ÍA fram á síðustu ár og mikill áhugamaður um framgang knattspyrnunnar.

Knattspyrnufélag ÍA þakkar Sveini Teitsyni hans þátt í að setja knattspyrnustarfið á Akranesi á þann stall sem það er og fyrir allan þann stuðning  sem hann veitti félaginu á löngum tíma. Börnum hans og öðrum aðstandendum eru sendar hugheildar samúðarkveðjur.

Blessuð sé minning Sveins Teitssonar.

Sveinn Teitsson og Helgi Daníelsson með viðurkenningar frá KSÍ fyrir að leika 20 landsleiki.

 

Jón Leósson og Sveinn Teitsson, margfaldir Íslandsmeistarar.

Myndir eru frá Ljósmyndasafni Akraness.