Robert Menzel gengur til liðs við ÍA

Hulda Birna Baldursdóttir framkvæmdastjóri KFÍA og Robert Menzel

Pólski miðvörðurinn Robert Menzel hefur samið við ÍA til loka leiktíðarinnar 2017. Robert er 26 ára gamall og hefur spilað um 70 leiki í efstu og næst efstu deild í Póllandi. Hann lék síðast með Podbeskidzie Bielsko-Biala í pólsku B-deildinni.

Hann kom á reynslu til ÍA fyrir tveimur vikum og í framhaldinu var ákveðið að semja við þennan stóra og stæðilega hafsent. Hann er kominn til landsins og spilar æfingaleik við HK á laugardaginn og er vonast til að félagsskipti verði klár þegar ÍA mætir ÍR í Lengjubikarnum laugardaginn 11. mars.

Gunnlaugur Jónsson er ánægður með liðstyrkinn. “Mér líst mjög vel á Robert, hann er öflugur hafsent sem kemur með hæð inní liðið og er vel spilandi. Þessi strákur kemur vel fyrir og ætti að henta okkar liði virkilega vel.”